[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
Áramót Ég ákvað að það væri nú ekki annað hægt en að einhver bloggfærsla yrði nú við lok ársins. Ég er á leið í matarboð hjá vinafólki sem við verðum í fyrsta sinn nú með á áramótum, hlakka mikið til, enda ekki alveg verið að gera sig hefðir undanfarinna ára sbr. í fyrra þegar allt leystist upp um hálftvöleytið og allir farnir heim rúml. tvö... ekki svona alveg skemmtilegasta í heimi eftir mikla eftirvæntingu. Ó nei, þessi áramót verður sko fjör frameftir öllu. Verst að ég var vakin í morgun við símhringingu - meiri dónaskapurinn að leyfa manni ekki að sofa út á langþráðum frídegi uss!
Þetta ár hefur verið alveg ágætt bara finnst mér. Ansi erfitt samt, missti vinnuna og upplifði atvinnuleysi í fyrsta skipti, fór í fjölmörg atvinnuviðtöl og fékk fínt starf sem mér líkar vel í svo það fór bara á besta veg. Ég fór til Baltimore í febrúar. Ég tók stigspróf og gekk þrusuvel í því, fór til Nice á jazzhátíð í sumar. Næsta ár leggst einkennilega í mig samt, veit ekki af hverju, kannski bara af því að ég á von á að það verði mikið breytingaár (nú á ég von á því, síðustu áramót datt mér það nú ekki í hug en allt fór á hvolf). Ég á stórafmæli á árinu, þarf að ákveða hvað ég ætli að gera í mínum stigsprófsmálum en ég hef ekki getað ákveðið mig og í byrjun árs gæti ég þurft að taka stórar ákvarðanir. En merkilega oft virðist svona lagað bara leysast af sjálfu sér ef maður fylgir sinni sannfæringu. Svo ég bara held því áfram.
Ég hef aldrei verið áramótaheitamanneskja svo ég ætla ekkert að byrja á því núna neitt. Ég væri til í að gera eitt og annað, upplifa eitt og annað, eignast eitt og annað... en maður verður bara að vona hið besta. Áramótaóskin mín er nú helst bara að allir sem maður þekkir haldi heilsu og maður sjálfur meðtalinn, það er ágætis ósk - svo er það bara að gera sitt til að hún uppfyllist.
Skemmtið ykkur vel í kvöld - það ætla ég að gera! Gleðilegt nýtt ár og takk kærlega fyrir allt liðið!
:: geimVEIRA:: kl. 17:33:: [+] ::
...
:: mánudagur, desember 29, 2003 ::
Ég útnefni mig snilling dagsins!
Ég mætti í vinnuna of seint (hélt ég) kl. rúmlega átta í morgun en komst þá að því að ég var alveg að rugla með vaktaplanið mitt og átti ekkert að koma fyrr en kl. 9.... urrrr.... Svo í stað þess að halda út til kl. 16 þarf maður að vera í 9 tíma - bölv. ragn. urr.
Ég er alveg á móti því að það sé unnið milli jóla og nýárs. Þetta er bara vitleysa. Allir heim! Allir heim nema ég, því ég er svoddan snillingur.
:: geimVEIRA:: kl. 08:58:: [+] ::
...
:: laugardagur, desember 27, 2003 ::
Til að vega upp á móti skammarlegri sóun á single-life geimVEIRU er rétt að árétta að hún á pils með pallíettum, naglalakkar sig og getur alveg verið sæmilega dömuleg. Hver segir að maður megi ekki kunna bæði númerin á flottustu varaglossunum og IP-tölurnar á staðarnetunum sem hún kemur nálægt? Fékk mér meira að segja snjóhvíta loðkragapeysu í jólainnkaupakastinu - á morgun verða keypt martiniglös og Bollinger. Ég ER díva. Bara kannski meira svona ídýfa.
:: geimVEIRA:: kl. 05:26:: [+] ::
...
Ég hef náð nýjum hæðum í tölvunördisma mínum að ekki sé nú talað um stafsetningarnasismann þegar geimVEIRAN hefur varið góðum hluta föstudagskvölds ekki aðeins í tölvunni, heldur við þýðingar á íslenska viðmótinu á Google leitarvélinni. Ég festist alveg í þessu. Það voru nokkrar ljótar villur sem ég lagaði - nennti nú ekki að skipta mér af öllu en mikið agalega var gaman að krukka í þessu. Ég veit. Ég veit.... ekki öfunda mig af glamúrnum - þetta er meðfætt!
:: geimVEIRA:: kl. 05:21:: [+] ::
...
:: föstudagur, desember 26, 2003 ::
Gleðilega hátíð!, Ég hef nú bara farið í algjört melt-down í jólaprófunum, -látunum, -þrifunum (sem ekki urðu eins mikil og til stóð vegna aumingjaskaps), -stressinu (yfir því að klára ekki allt sem ég ætlaði mér), og -kvíðanum (yfir prófum og stressinu og allsherjaráhyggjum sem mér tekst yfirleitt svo ágætlega að galdra fram í mesta skammdeginu). En þetta hafðist á endanum. Náði meira að segja að fara í jólaskap og njóta jólanna svo þetta reddaðist allt saman á endanum. Hef þó ekki haft mig í blogg fyrr en nú.
Jólaprófin í hljómfræðinni gengu mun betur en ég óttaðist, samt er ég ekki viss hversu vel mér gekk... ég var allavega ekki algerlega úti að aka, held meira að segja að ég hafi ekki fengið villur fyrir alla skala eins og í vor, það á samt eftir að koma í ljós. Jóladjammið með skólanum um daginn var fámennt en góðmennt, stuðið var sæmilega lengi að síga inn hjá mér og fleirum enda frekar mikil þreyta eftir vikuna, en boy oh boy hvað það svo hélst og hélst og hélst, fyrsta eftirpartý aldarinnar var fram undir morgun í miðri ruslahrúgunni sem ég kalla heimili mitt. Einstaklega skemmtilegt en óendanlega var ég þreytt um helgina líka. Ég naut jólainnkaupanna mjög vel, enda fóru leikar þannig að ég fann endalaust á mig og handa mér hið ýmsasta dót og fékk því bara fullt af jólagjöfum frá mér til mín, algjör snilld. Ég fékk síðan bók, geisladisk, litla mynd, kaffikvörn og ullarteppi í jólagjafir, og tvær voðafínar gjafakörfur aðra með allskonar dúlleríi úr Heilsuhúsinu, hin var ostakarfa með rauðvíni og gúmmolaði. Sú síðarnefnda kom nú algerlega óvænt því hún var frá vini foreldra minna sem ég söng í veislunni fyrir um daginn.
Ég er búin að vera í allskyns tölvufikti downloadaði heilu og hálfu realbókunum er búin að koma Sibeliusi vini mínum inn í Pjakk og einhverju af MP3/OGG safninu. Þetta er allt að koma þótt þráðleysið sé enn mjög óþekkt. Góðu mennirnir hjá Og Vodafone klikkuðu smá á einfaldri stillingu sem mér skilst nú að sé aðalvandamálið - ég mun hinsvegar vera í sambandi við þá á morgun og vonandi komumst við til botns í þessu öllu saman.
Ég er eins og útbarin ég er með svo marga marbletti, ég er alltaf að reka mig í allt síðast á aðfangadag þá sló ég úlnliðnum í borðhorn og er núna með kúlu á hendinni og mar sem hefur lekið voðaskemmtilega niður eftir handarbakinu mínu, ég er með 10 marbletti í kringum annað hnéð eftir að reka mig í stóla, borð, skúffuhnúða og hvað það sem helst vill verða á vegi mínum. Þetta fer að verða eins og United Colors of Benetton campaign að líta í spegil. Gaman að prófa að vera svona fjólublár, brúnn, gulur og grænn svona til tilbreytingar við bláhvíta bjarmann.
Vonandi hafið þið haft það gott og haldið því áfram um jólin!
:: geimVEIRA:: kl. 23:43:: [+] ::
...
:: fimmtudagur, desember 18, 2003 ::
Ég ætla að taka mér sumarleyfisdag á morgun til að vinna mig inn í jólafílinginn, en ég er eftir að gera allt. Er bara búin að skreyta svalirnar og búið, allt annað eftir. Ég fer í verklega hljómfræðiprófið á eftir og síðan er maður í það minnsta kominn í frí frá skólanum. Tölvan er loksins komin í almennilegt samband og hélst tengd heillengi í gær alveg og náði að sækja gögn úr hinni tölvunni svo nú er Sibeliusinn kominn inn og svona.´
Ég er ekki enn komin í neitt rosajólaskap, hef ekkert náð að svona leyfa þessu að síast inn eins og oft áður... vonandi hellist andinn yfir mann um helgina bara. Ég keypti mér ný heyrnartól áðan, bara ódýr en alveg ágæt samt heyrist mér, Sennheiser klikkar ekki þarna. Fínt að eiga svona til að druslast með lappanum og ferðageislaspilaranum. Ég tók hann einmitt með mér í dag til að hlusta á lagið til prófs í dag, ég gæti alveg hugsað mér að fara að verða duglegri að nota hann. Verst að maður getur ekki troðið þessu inn í eitthvað demparaslot í bílnum bara .... hvenær kemur eitthvað gáfulegt svoleiðis system?
:: geimVEIRA:: kl. 15:51:: [+] ::
...
:: þriðjudagur, desember 16, 2003 ::
Jæja, ég er búin í bóklega jólaprófið í hljómfræðinni. Slapp held ég skítsæmilega frá þessu, held að ég hafi náð skárri árangri í því sem mér hefur gengið verst með í vetur, betri en ég átti von á allavega - tókst samt líka að klúðra sumu hressilega, svo þetta verður spurning um vægi hvers liðs fyrir sig.
Fann voðasniðuga heimasíðu sem ég setti link á hérna, einfalt hjálpartæki í transpóneríngarnar, ætla að föndra mér svona fimmundahringjajólaföndur um helgina.
:: geimVEIRA:: kl. 08:44:: [+] ::
...
:: sunnudagur, desember 14, 2003 ::
Whahahah ég er sannfærð. Þetta er helvítis karlinn!
Húmor að sýna hann þarna með tunguspaðann og ljósið uppi í kjaftinum.... hí á hann.
:: geimVEIRA:: kl. 12:24:: [+] ::
...
Mikið rosalega er ég hissa og ánægð núna! Mér finnst lyginni líkast að búið sé að ná Saddam Hussein, greinilegt að aldrei hefur verið hvikað frá markmiðinu að taka karlugluna, þetta á að mínu mati eftir að hafa gífurleg áhrif á ástand mála þarna. Írakar þustu út á göturnar við fréttirnar, fólk þorir vonandi loksins að tala hug sinn og er gefandi hvert öðru sælgæti og skjótandi af byssum upp í loft, vonandi finnst eitthvað af þessum fjármunum sem hann stal af þjóðinni líka. Ég er glöð fyrir hönd þessara hermanna sem eru þarna að loksins komi einhverjar ánægjulegar fréttir, þetta mun hafa svo mikil sálræn áhrif. Kannski er það af því að ég er einarður NATO-sinni, kannski er það af því að ég hef gaman af Ameríkönum og hef kynnst fjölskyldum úti á Velli, kannski af því að ég er svoddan ENTJ/Field Marshall-týpa, ekki ætla ég að fara að afsaka það. En þetta finnst mér með ánægjulegustu fréttum ársins.
:: geimVEIRA:: kl. 12:08:: [+] ::
...
:: laugardagur, desember 13, 2003 ::
Dr. Evil actually...
Snilld. Ill snilld. Er maður Dr. Evil sjálfur að finnast þetta fyndið? Whatever! Sue me! Sue me for a hundred THOUSAND dollars!!!!!!
Ædol Ég bara verð að tjá mig um hversu hrifin ég er af gæðum íslensku Idol keppninnar, ekki aðeins hafa þessir krakkar staðið sig alveg eins og hetjur, heldur er öll production á keppninni svoleiðis alveg langtum framar heldur meira að segja ameríska keppnin. Soundið er alveg ótrúlega gott, miklu meira lagt í útsetningarnar og ekki svona hrikalegt midi-karaoke-dæmi neitt eins og mér fannst vera í amerísku keppninni sem ég horfði á, þau fá bakraddir og alles - rosaflott. Ekki hafa verið neinir hnökrar sjáanlegir í beinu útsendingunum og bara tæknilega er það gífurlegt afrek. Krakkarnir eru algerar hetjur finnst mér, manni er farið að þykja vænt um alla bara og ég var hjartanlega sammála því að eiginlega ætti enginn að fara heim í kvöld. Uppáhaldskeppandinn minn í kvöld var Blönduóspæjan en hún hefur aldrei heillað mig sérstaklega fyrr, en núna einhvern veginn small þetta svo flott saman hjá henni. En allavega gaman að sjá að þetta er gert svona rosalega vel gert - ég greiddi einhver atkvæði svona til að vera með, ég er hrædd um að nú verði maður alveg hooked.
:: geimVEIRA:: kl. 22:25:: [+] ::
...
Ég er komin með þráðlausa sambandið upp, en samt dettur það alltaf út eftir ýmist 5, 15 eða 20 mínútna samband. Mjög pirrandi. Ég fékk upplýsingar um að það gæti verið einhvers konar timeout á netkortinu, svona powersavefídus einhver... en ég þarf að aðgæta það þegar ég kem heim. Mér tekst ennþá ekki að koma upp netsambandi milli gömlu og nýju vélarinnar, tókst það ekki með kapli um daginn (en þá var nú reyndar IP-talnabransin ekki alveg í lagi) ég verandi komin með meldingu um að þráðlausa tengingin væri komin í lag vildi náttúrulega geta komist inn á gömlu tölvuna mína á innanhússneti - var að fikta í því náttúrulega sem og öðru, en það hefur enn ekki gengið heldur.
Til að upplifa að eitthvað virki prófaði ég í gær að horfa á kvikmynd úr tölvunni í sjónvarpinu, það gekk mjög vel (svona þegar ég fann loksins réttu stillinguna).
Það verður engin smá hreingerning þegar ég get farið að flytja úr þeirri gömlu bæði hent og skrifað út á diska það sem mig langar að geyma, en nú losnar maður við eilífðarvandræðin með svcd fælana sem ég var komin í algera sjálfheldu með. Nú keyrir maður bara divx beint út af lappanum, sparar vinnu og geisladiska og harðdiskpláss. Hmmm... hvað skyldi geimVEIRA gera við aukið diskpláss... gettu!
:: geimVEIRA:: kl. 12:11:: [+] ::
...
:: miðvikudagur, desember 10, 2003 ::
Það var kominn tími til! Þetta gekk á endanum, held ég. Ég er loksins komin á þráðlaust samband á nýju vélina, en það gekk alveg einstaklega illa, og er svona held ég ekki ennþá alveg komið á hreint. Í það minnsta dett ég alltaf annað slagið út. Ég veit ekki alveg hvað gerist, held samt að tölvan sjálf sé ekki í rugli, en nú hafa farið fleiri klukkutímar í fikt og vélin farið á verkstæði og á endanum kom tæknimaður heim sem reddaði þessu, en ég er samt ekki alveg sátt við að detta ennþá út, þetta er önnur tilraunin mín til að blogga á vélinni, en allt datt út akkúrat þegar ég ætlaði að birta áðan.
:: geimVEIRA:: kl. 23:02:: [+] ::
...
:: fimmtudagur, desember 04, 2003 ::
Jæja, þá er maður búinn að sækja tölvuna og tryggja hana líka, ég fer á eftir og kaupi tösku og síðan beint heim að fikta og fikta og fikta... ég fékk mjög góðan díl á tryggingu á vélina hjá Sjóvá-Almennum og fann á síðunni þeirra svo jólalegt logo að ég ákvað að láta hana fylgja. Ég kvíði mest fyrir að stilla eldvegginn, ég er ekkert sérlega mikið inni í þeim stillingum öllum, þetta verður gaman þetta fikt. Aldrei að vita nema næsta blogg verði úr nýju tölvunni.
:: geimVEIRA:: kl. 15:28:: [+] ::
...
Tölvukarlasnúllur Ég hringdi í tölvubúðina bara svona upp á von og óvon til að kanna hvort fyrir einskæra lukku vélin mín væri tilbúin og viti menn!? Hún er bara bíður þess að vera sótt. Þar sem búið var að gefa mér fyrirvara um að hæpið væri að þetta næðist fyrr en á föstudag og í versta falli á mánudaginn er ég mjög glöð að þetta skyldi síðan bara nást eftir allt saman.
Ég fór í gær að skoða töskur og fann eiginlega bara eina sem mér líkaði við, mjög praktíska sem er í stíl við ferðatöskurnar mínar - sem er pjatt en samt svoldið gaman ef maður næði að hafa þetta eiginlega í stíl, en hún er ansi dýr á tæp 9 þúsund, svo sá ég líka mús sem mig langar í sem er optical ferðamús með inndraganlegri snúru, nokkuð snjallt sýndist mér. Æi, það er endalaust hægt að kaupa gizmo með þessu auðvitað, held samt ég taki þetta tvennt og slappi síðan af.
:: geimVEIRA:: kl. 11:23:: [+] ::
...
Heheheh.... farið á Google, setjið inn "miserable failure" og smellið á "Vogun vinnur, vogun tapar" hnappinn.
:: geimVEIRA:: kl. 00:17:: [+] ::
...
:: þriðjudagur, desember 02, 2003 ::
Tímaplönin eru farin að klikka eitthvað smá, en ég var sátt við að fá hughreystingu og upplýsingar um leið frá tölvufyrirtækinu svo ég ætla ekkert að missa kúlið það er enn verið að gefa mér von um að ég fái gripinn fyrir helgina.
:: geimVEIRA:: kl. 14:05:: [+] ::
...
:: mánudagur, desember 01, 2003 ::
Jibbíkóla! Þá er ég loksins búin að panta tölvuna mína. Hún mun líta svona út:
Gripurinn verður með 60 gígab. hörðum disk (7200), gígabæt í minni, Intel Pentium M 1,6 mHz örgjörva, Centrino, og alls konar gúmmolaði. Ég hlakka mikið til að fikta í henni þessari, verður gaman að hafa loksins þráðlaust net. Já, þá verður bloggað úti á bílastæði, mailað utan af svölum... ih.. eða þannig.
Þar sem maður er með sérþarfir þarf ég að bíða degi lengur en ella, en ég á að fá hana á fimmtudaginn kemur. Þetta verður nú meiri hamingjan m.v. hina vélina, eða það ætla ég rétt að vona, ég er enn með hjatað í buxunum enda skíthrædd við að eitthvað klikki eins og með tölvu dauhauðans um árið. Allir krossleggja fingur fyrir geimVEIRU.
:: geimVEIRA:: kl. 16:00:: [+] ::
...