[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
Skýrslan Ég hef verið lasin í viku núna, var heima drullulasin á þriðjudaginn og miðvikudaginn, var orðin aðeins skárri á fimmtudaginn og náði nægri rödd til að massa giggið á fimmtudagskvöldið á Rósenberg. Ég lærði ný trix af vinnufélögum og dúndraði í mig Panodil Hot og sniffaði rosalega mentholdropa fyrir tónleikana, var fegin að ná að klára giggið allavega. Ég var ósköp tæp í gær samt í vinnunni, sveitt og með hroll og svona, en algjörlega óvænt fékk ég þó háryfirhalningu. Þá hafði ég víst pantað tíma síðast þegar ég var í klippingu, en klikkað eitthvað á því að bóka það inn í símann minn eins og ég hélt ég hefði gert. Ég fékk því upphringingu og var í algjöru stressi að reyna að redda þessu, en foreldrar mínir höfðu einmitt fengið lánaðan bílinn minn og allt frekar stacked against me þarna ég á leið í vinnu nr. 2 og dauðhrædd um að ég myndi verða eins og útigangshross næstu vikurnar, enda ekkert hægt að fá tíma á næstunni. Þetta tókst með sérlegum liðlegheitum vinnuveitenda, svo ég kom nýklippt og með fínar strípur út. Það var náttúrulega ekki annað hægt en að fara með hárið út að borða og fór ég með fjölskyldunni á Banthai enda við öll í stuði fyrir tælenskan mat. Þetta var í fyrsta skipti sem við komum þangað og vorum við rosalega ánægð. Rosagóður matur og þjónusta.
Ég fékk fyrsta laugardagsfrí í þokkalega langan tíma, ósköp næs. Í gærdag fór ég í afmælisboð til ömmu minnar og eftir að fá mér hvítlaukssteiktan hörpudisk í kvöldmatinn (yummmy) fór ég í kveðjupartý Söndru og Sigga á Stúdentakjallaranum, en þau halda til Svíaveldis í nám á þriðjudaginn. Þar var mjög næs, þar var spilað og spjallað og labbað niðrí bæ og á Rósenberg. Vökudýr enduðu á Celtic Cross, en mér tókst að misstíga mig á hælaskónum og detta í torfæru sem var fyrir utan Grandrokk (ekki nógu sniðugt að hafa illa frágengna hellulögn fyrir utan öldurhús). Ég fékk sár og datt (bókstaflega) alveg úr stuði, enda hálfhölt og með blóðtaum niður legginn og með slatta af blóði komið í stígvélið mitt og mín táraðist alveg hreint og fékk bömmer að detta eftir að hafa fengið mér í glas (þótt ég hugsa að ég hefði húrrað alveg jafnmikið niður þarna ódrukkin). Á Celtic var ekki hægt að fá neinn sjúkrakassa (!), en stúlka á barnum reddaði mér venjulegum litlum plástrum sem ég reyndi að klemma sárið með. Eftir að vera í 20 mín. að standa í þessu veseni, loka sárinu með 4 plástrum (og þeim fimmta sem kona setti á mig á klósettinu því hún vorkenndi mér svo híhíh) þrífa blóðið af löppinni og svona ákvað ég að drífa mig heim. Svo varð mér til happs að fá að fara inn á Rósenberg aftur og pissa þótt væri búið að loka, enda voru þar ennþá krakkar sem ekki höfðu farið uppeftir, ég var þar aðeins áfram en var ekki í neinu stuði og fór bara aftur út. Ég fann engan bíl svo ég labbaði á endanum heim.
Ég er algjör hornös ennþá, vaknaði kl. 10 í morgun án timburmanna en enn með kvefskrattann svo ég fékk mér morgunmat og fór að glápa á mynd. Náði sem betur fer að sofna samt aftur síðar í dag. Núna nenni ég ekki að elda mér neitt. Langar líka bara í hörpudisk aftur, þetta var svo rosagott í gær. Nenni samt ekki út í búð.
Það er farið að verða svo dimmt eitthvað á kvöldin, ég ætla að muna að kveikja bara á kertum og kósí á eftir.
:: geimVEIRA:: kl. 17:46:: [+] ::
...