[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
Súperman með lokkinn fram á ennið Ég ætla að vera í borginni um verslunarmannahelgina, enda betri dagskrá í vændum en á nokkurri útihátíð. Annaðkvöld fer ég nefninlega í ekta stelpupartý með fingrafæði, rauðvíni, pallíettum og varalit. Á laugardaginn er einhvers konar partý í uppsiglingu, eina sem er alveg öruggt er að það verður góðmennt og þar verður gaman, svo á sunnudaginn er æfing hjá Siglufjarðarhópnum. Í kvöld bættist við sérstaklega ljúft sígaunalag á romani svo enn bætist í tungumálakraðakið. Ég var að rifja upp með sjálfri mér að (þótt ég geti nú ekki munað margt af þessu ennþá) ég hef á ævinni sungið á íslensku, dönsku, frönsku, norsku, sænsku, ítölsku, þýsku, finnsku, dönsku, ensku, spænsku, grísku, romani (sem er sígaunamálið), rússnesku og hebresku.
Á kaffihúsi í kvöld var verið að rifja upp leiki okkar sem krakka. Meðal minna elstu minninga er þegar ég var líklegast 3ja - 4ra ára á Tjarnarborg að leika Súperman upp á hóli, og þá ákveðið atriði úr bíómyndinni sem mér fannst sérstaklega tilkomumikið, það var þegar Súperman lagðist yfir rofna járnbrautarteina og reddaði aðvífandi lest og bjargaði deginum. Þarna lá ég á maganum og krakkarnir brunuðu á lestinni yfir mig, Súperman sjálfan, mikið var reynt að laga toppinn með mátulegri slefju svo hann krullaðist fram á ennið eins og á hetjunni, en það gekk aldrei. Hárgel var ekki til og slefjan dugði hreint ekki.
Súperman bjargar deginum!
Það var óumflýjanleg staðreynd í mínum heimi þegar ég var krakki, að ég var hetjan, stjarnan, kennarinn, búðareigandinn og löggan og kippti í strengina á fylgikindum eftir þörfum, enda vissi ég allt best. Á sama hóli söng ég einnig Bleika pardusinn með tilþrifum en var beðin vinsamlegast um að hætta. Síðan man ég eftir þegar ég "fann upp" ísbúð í sandkassanum. En sá búðarrekstur minn gekk semsagt út á að sækja blautan sand og þurran sand í sína hvora fötuna og selja þennan súkkulaðishake og þennan jarðarberjashake þeim krökkum sem ég náði að stjórna í það skiptið í lítil box. Ekki aðeins var þetta bransi heldur var sko kerfi á að hella úr fötunum þannig að þetta væri alls ekki fata, heldur ísvél. Þegar settur var upp kofi á leikvellinum sem var með lúgu og afgreiðsluborði lagðist þetta alveg af. Það var eins og þá væri þetta orðið of raunverulegt og sjarminn fór af þessu.
Ég snappaði smávægilega í vikunni, fór í Tónabúðina og keypti mér nýjan míkrófón. En hann er condenser sem er tilvalinn í upptökupælingarnar mínar en sem einnig hentar fyrir lifandi tónlistarflutning hann heitir Shure Beta 87C. Hann er með innbyggðan popfilter og verandi condenser og sérlegur söngmækur þá átti ég ekki orð yfir muninn á hljómnum úr þessum og svo mínum gamla Shure Beta 57A sem er dýnamískur og meira alhliða en að vera bara sönghljóðnemi/söngmíkrófónn/söngmækur (mér finnst öll þessi orðskrípi ömurleg á prenti). AER-kubburinn blessaður er samt að túra landið þessa dagana, svo ég nota ekki nýja mækinn fyrr en á sunnudaginn aftur, nema jú með MBoxinu. Kubburinn er sko að meika það meira en eigandinn, enda orðinn nokkur skemmtilegur listi fólks sem fengið hefur að spreyta sig í honum. Kannski maður ætti að halda bók um þetta, gæti verið spaugilegt síðar.
Ég er að reyna að sannfæra sjálfa mig að þessar dimmu nætur séu kósí. Það gengur ekkert rosalega vel. Það er samt dagur á morgun, skemmtilegur dagur meira að segja. Það eru ekkert nema möguleikar framundan og gott ef Súperman brúar ekki bilið fram undan á veginum. Svei mér þá, jú, mér sýnist glitta í eitthvað rautt flaksandi framundan!
:: geimVEIRA:: kl. 01:41:: [+] ::
...