[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
Lélegt! Tímaskekkja! Frat! Ég lýsi hér með yfir frati á ömurlega þjónustu vínbúðar ÁTVR í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Ég á vinnufélaga sem ætlar að fara út í Eyjar og er ég meira en lítið gáttuð að heyra að þetta ríkisapparat lokar kl. 12 í dag á föstudeginum fyrir þjóðhátíð og ekki aðeins er lokað á óeðlilegum tíma í dag, heldur er ekki opið á morgun eins og alla aðra laugardaga, sjá fréttatilkynningu hjá ÁTVR.
Ástæða þess að ég er svona hneyskluð er, að á meðan einokun ríkisins er á sölu þessa varnings þykir mér grundvallaratriði að þjónustustig sé eins hátt og mögulegt er og verslanir séu reknar undir almennum auglýstum opnunartíma á hverjum stað fyrir sig. Verið er að stefna þúsundum aðkomufólks í bæinn þessa helgi og er alveg þekkt að margur mun ætla sér að fá sér í glas þessa helgi. Vegna lokunar þessarar vínbúðar sem auglýsir opnunartíma yfir sumartímann frá mán. til fim. 11:00 - 18:00, milli kl. 11:00 - 19:00 á föstudögum og svo milli kl. 11:00 - 14:00 á laugardögum, er verið að búa ferðamönnum sem hyggjast fá sér í glas mjög erfiðar aðstæður og verið að þvinga þá til þess að a) koma með veigarnar með sér af meginlandinu b) kaupa allt vín á uppsprengdu verði á veitingasölum bæjarins c) að drekka ekki þrátt fyrir að hafa ætlað sér það. Enginn þessara kosta þykir mér boðlegur í dag, neytandinn á velja svonalagað fyrir sjálfan sig.
Mér þykir það ljóst að sé verið að þvinga fólk til þess að hafa með sér vín muni það leiða af sér tvennt. Annars vegar að ef fólk eins og flestir í dag vilja, ætlar að drekka bjór er ljóst að flestir munu þurfa að burðast með 6-10 kíló af neysluvöru sem ríkið á að sjá til þess að sé seld í bæjarfélaginu, fyrir utan farangurinn og matvæli er verið að hækka umframþyngd með farþegum í flugi á mjög óeðlilegan máta, enda algerlega fáránlegt að fólk ráði því ekki hvort það kaupi neysluvöru í smásölu ef hún á annað borð er í boði dagsdaglega. Hins vegar eru það þeir sem munu ekki nenna að druslast með þunga vöru eins og bjór og léttvín, en ætla samt að detta í það. Hvað gera þeir? Jú þeir munu hafa með sér sterkt vín enda léttara í farangri og minni hætta á yfirvikt. Er það nú til bóta? Ég hefði talið að langt langtum skárra væri að fólk hefði nægan eðlilegan aðgang að léttu áfengi á borð við bjór á venjubundnum opnunartíma, en að fólkið sem sullar á flugvellinum til dæmis sé að læðast í sterkvínin.
Sé markmiðið að auka innkomu hjá bæjarfélaginu með því að þvinga þjóðhátíðargesti til þess að versla á veitingastöðum, þá þykir mér það mjög gróf miðstýring enda ekki að því hlaupið að fara í næstu vínbúð þegar til Eyja er komið. Ef markmiðið er að halda fólki edrú þá er ég ansi hrædd um að það muni missa marks, enda þjóðhátíð ekki þekkt fyrir að vera bindidismót. Öll rök sem miða að því að starfsmenn ÁTVR megi ekki missa af skemmtuninni þykja mér dauð og ómerk enda algerlega fyrirséð að stóraukin eftirspurn eftir þessari neysluvöru þegar þúsundir fólks streyma í bæjarfélagið leyfi einfaldlega ekki að brotið sé út af eðlilegum opnunartíma verslunarinnar. Stóraukin innkoma myndi í öllu falli gera kleift að borga sérstakt álag á laun ef út í það er farið.
Öll svona átroðsla á eðlilegri þjónustu við neytendur af hálfu ríkisins þykir mér í hæsta máta óeðlileg. Ég bendi á að á Seltjarnarnesi er vínbúðin opin til kl. 20 í kvöld. Mér er fyrirmunað að sjá tilganginn í því að verslun ÁTVR úti í Eyjum sé ekki opin eins og alla aðra föstudaga til 19:00, rétt eins og aðrar verslanir ÁTVR á landinu halda sinn opnunartíma. Ef ríkið ætlar á annað borð að halda þessari einokun þykir mér lágmarkið að rekstrarafkoma allra verslana sé hámörkuð eins og frekast er unnt.
Eins og ÁTVR stendur sig vel víðast hvar og hefur verulega komið til móts við kröfur viðskiptavina t.a.m. hvað varðar opnunartíma o.fl. þá kemst ég hreinlega ekki yfir þessa yfirsjón. Ég skora hér með á fyrirtækið að fylgjast betur með því að auglýstur opnunartími sé haldinn.
:: geimVEIRA:: kl. 10:29:: [+] ::
...