[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
NAU NAU NAU Það er gaman að fara óvænt á kaffihús með skemmtilegum félagsskap.
Það er ekki gaman að koma heim og ætla að fara að lúlla, en komast að því að beint fyrir utan svefnherbergisgluggann eru stórvirkar vinnuvélar í gangi.
Það er gaman að vera bitch og hringja í símanúmerið á vinnuvélunum til að komast að því hvað sé á seyði, enda kl. að verða 2 og fólkur eins og ég á að vera mætt í vinnuna eftir 6 tíma.
Það er ekki gaman að fá þá upplýsingar um að verið sé að flytja HEILT HÚS á grunninn sem staðið hefur í augsýn um nokkurt skeið og flutningi hafi átt að ljúka fyrr í kvöld, en þetta hafi tafist svo öll nóttin á líklegast eftir að fara í hávaða og hamagang þegar húsið er híft á grunninn, svo maður sefur líklegast ekkert í nótt.
Það er gaman fyrir verktakana að ég skyldi bara vekja einhvern greyið yfirmann, sem svaf líka á sitt græna, en ekki hringja beint í lögguna.
Það er ekki gaman að menn sem standa í byggingarframkvæmdum með stórvirkum vinnuvélum tilkynni fólki í næsta nágrenni að það megi eiga von á því að sofa ekkert eitt stykki nótt í miðri vinnuviku.
Það er gaman að vera búin að naglalakka sig með nýja naglalakkinu sem ég gleymdi að ég ætti.
Það er ekki gaman að einhver gefur í skyn að nýnaglalökkuðu neglurnar séu mengandi.
Það er gaman að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að finna sér sumarvinnu.
Það er ekki gaman þegar batteríið er að verða búið í fartölvunni og hún pípir á mann.
Það er gaman að prófa sig áfram með austurlenska matargerð.
Það er ekki gaman að kunna ekki nógu mikið á tölvur.
Það er gaman að hlakka til mikils tölvufikts í sumar, mboxið, ný heimasíða, sibbi massaður...o.s.frv.
Það er ekki gaman að vera með vöðvabólgu sem er farin að leiða til raddvandamála og þurfa að þegja en verða að æfa sig fyrir verklega hljómfræðiprófið sem er á fimmtudaginn.
Það er gaman að vera búin að kynnast a.m.k. tveimur manneskjum sem ekki eru minni málfræði- og stafsetningarnasistar en ég.
Það er ekki gaman fyrir allt annað fólk þegar boðháttur sagna er ræddur og brotthvarf z og hversu mikilvæg stafsetning er og hvernig málfræðivankunnátta getur verið pirrandi.
Það er gaman að á síðu Morgunblaðsins í kvöld var Sylvester Stallone sagður hafa ekki aðeins leikstýrt Taxi Driver, heldur fengið Óskarinn fyrir það árið 1977.
Það er ekki gaman fyrir þann starfsmann sem kom þessari fáránlegu þvælu í birtingu, en ég sendi ábendingu til mbl.is og á Hildi Loftsdóttur kvikmyndagagnýnanda sem ég held að hljóti að hafa lúmskt gaman af þessari mögnuðu steypu.
Það er gaman að það skyldi ganga upp í dag hjá mér að skipta um aðalnúmer á stigsprófinu og fá inn í það bassamassa og allt.
Það er ekki gaman ég á að vera mætt í vinnuna eftir minna en 6 tíma og nú er liðið með vinnuvélarnar farið að garga eitthvað sín á milli.
Það er gaman að á morgun fæ ég fersk hindber í heilsuhristinginn minn, já og kókosmjólk, banana og fersk jarðarber og ... namm!
Er ekki ágætt að enda svona rugl bara á matarblaðri... er það ekki allt sem maður talar um, hugsar og gerir... að éta? Maður ber það allavega með sér (í orðsins fyllstu). Ég bjó mér til tofurétt nr. 2 í kvöld. Hann var enn betri en nr. 1, enda skellti ég vorlauk og ferskum engifer með... arrrg... nú eru blikkljós og hávaði í keðjum ... það er EINS gott að þetta bloody hús sem maður þarf að hafa fyrir augunum framvegis verði flott, vel hirt og með lágværum íbúum.
Jæja, best að glápa bara út um gluggann, ekki oft sem maður sér nágrannahús síga af himnum ofan á grunn sinn, á ég að kveðja það fáránlega litla útsýni sem maður þó hafði? Eða á maður að reyna að sofna í eldhúsinu með eyrnatappa og vona að maður vakni við vekjaraklukku þótt maður sé með eyrun full af frauði?