[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
Lucky bastard Í gær ætlaði ég aldrei að koma mér í gírinn, ég sofnaði ekki fyrr en ca. þrjú aðfararnótt mánudagsins líka svo ég var ekki beint upplögð. Ég gerði díla við djöfulinn allan daginn til að dragnast úr sporunum, ákvað að mæta í vinnuna en skrópa í skólann enda stóð til að ég fengi ekki að fara tímanlega úr vinnunni og eftir mánudag dauðans þarna viku áður langði mig hreinlega ekkert í skólann heldur. Þegar það síðan breyttist og ég gat fengið að fara, þá ákvað ég að gabba sjálfa mig og mæta þá í fyrri tímann bara, sem var tónheyrn og feisa músíkina og fara ólærð í próf en fara í staðinn bara heim, þ.e. skrópa í hljómfræði. Þegar í skólann var komið hitti ég svo söngkennarann minn og fékk að vita að það ætti að fara að scatta í söngvinnubúðum og þá datt mér nú í hug besta uppstrumpun á þessu öllu saman og ákvað að verða tónheyrnarlaus með öllu og skrópa í tónheyrnina en fara í söngvinnubúðirnar. Það var alveg tími kominn á það að ég fengi að vera með í þessu líka og ég skemmti mér konunglega, svo vel að ég var búin að ákveða að fara bara í hljómfræðina í versta falli hlyti einhver osmósa að eiga sér stað. Eftir söngvinnubúðirnar hitti ég tónheyrnarkennarann og fékk að vita hvað gera ætti fyrir næsta tíma - já og fá úr einhverju tónbilaprófi síðan fyrir löngu, þá hafði mín bara fengið 10 og verið baktöluð eitthvað í tímanum.... úff! Ég sem ætlaði svona að sigla undir radarinn. Svo þegar ég kom fram á gang voru allir að gagga eitthvað um "hvort þeir ætluðu að fara" svo ég spurðist fyrir um hvað fólk væri að tala um og kom þá í ljós að það var barasta masterclass í gangi og það væri öllum opið, um leið og ég heyrði að um trommumasterclass væri að ræða ákvað ég að af því mætti ég ekki missa. Hljómfræðikennarinn ætlaði reyndar ekkert að sleppa okkur samt, en þar sem við vorum bara þrjú sem mættum í tímann og hann féll fyrir öllum hvolpaaugunum sex fengum við að fara.
Það var Jim Black sem hélt masterclassið og það var rosaskemmtilegt, hann var með skemmtilegar pælingar, mér fannst mjög skemmtilegt að ég skyldi bara meira og minna fatta flest sem hann sagði, sérstaklega fannst mér skemmtileg pælingin hjá honum með púls í tónlist frekar en endilega takt í þeim skilningi að telja allan andskotann, því ég upplifði svo sterkt á djambenámskeiði um árið þegar búið var að skipta upp í sex hópa sem allir gerður lítið taktmynstur og út kom alveg klikkaðslega flottur hjartsláttur, ekki beint taktur maður gat t.d. illa talið þetta, maður varð bara að hætta að hugsa, allir gerðu bara sitt mynstur og heildin breyttist smám saman eftir því sem áherslurnar færðust til. Hann sýndi okkur dæmi í gær einmitt um svona lagað, lét okkur klappa í 11 slögum í þremur hópum,áherslurnar snarbreyttust alveg. Eftir gærkvöldið langar mig ennþá meira að læra á einhvers konar trommur, mér finnst ég græða svo mikið á þessum pælingum.
Ég fæ svo loksins Kristjönu aftur í dag svo þetta er bara gleði. Já og undirleikstími í þokkabót! Tóm hamingja.
:: geimVEIRA:: kl. 11:04:: [+] ::
...