[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
Hermaður sviptur heiðrinum Mér blöskrar að út um allt í fréttum fyrr í dag var "headline-ið" að 19 ára Bandarískri stúlku hafi verið bjargað slasaðri úr klóm Íraka og að fjölskyldan væri í skýjunum, og maður fékk tár í hjartað hvað barnið hafi nú verið að álpast þarna aleitt í Írak á þessum tímum, en þarna var á ferð furðulegur hálfsannleikur, en þess var getið í framhjáhlaupi að hún hefði fallið í hendur óvinarins með hersveit sinni og hún væri hermaður.
Vissulega er þetta stúlka og bara 19 ára, hinsvegar var varla minnst á að þetta var ekki bara stúlka, ekki bara 19 ára. Þetta var nr. 1 hermaður Bandaríkjahers sem féll í óvinahendur við skyldustörf. Ungur aldur hermannsins er vissulega stingandi og þrekraunin enn frekar, en að hermaður sem er kvenkyns sé allt í einu titluð sem um almennan borgara væri að ræða og talað um hann undir öðrum formerkjum vegna kynferðis finnst mér út í hött. Fyrirsögnin átti að vera að hermanni hafi verið bjargað, það hafi verið kraftaverk að hann hefði þetta af, síðan nr. 3 hefði mátt koma aldur, kynferði, kjaftæði um familíuna o.s.frv. Það að tala um þennan hermann eitthvað öðruvísi en alla aðra sem særst hafa og látið lífið í stríðinu hingað til finnst mér lítillækka það sem þessi unga manneskja hefur lagt í sinn starfsferil, vissulega er hernaður ekki vel þekkt fyrirbæri hér á landi, en að tala um hermann við skyldustörf eins og villtan krakka er lítillækkandi með afbrigðum. 19 ára dreng bjargað! Sjáið þið þá fyrirsögn fyrir ykkur? Ó nei, þá hefði verið sagt: Hermanni bjargað! Mér finnst þessi umfjöllun í alla staði ófagleg. Það er sjálfsagður virðingarvottur við viðkomandi að vera titlaður í samræmi við tign. Óbreyttur hermaður hefur hlutverki að gegna og það hefur aðra þýðingu þegar hermaður særist og er tekinn fanga, en almennur borgari. Fréttamennska, þar sem ekki er nokkur leið að sjá frá hvaða sjónarhóli sagan er sögð, er óþægileg. Sannleikann má útbúa á svo marga vegu. Það var mjög tilsnyrt og niðursoðin fréttamennska að búa til æsifrétt um stúlku sem tekin var fanga, þegar um var að ræða hermann sem tekinn var fanga.
:: geimVEIRA:: kl. 23:14:: [+] ::
...