[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
Í morgun þegar ég kom til vinnu voru ca. 100 manns fyrir utan stjórnarráðið með íraska fánann og skilti gegn stríði, gegn Bush og gegn Nato eflaust líka, 3 löggubílar og nokkrir á mótorhjólum voru tilbúnir til að stýra þessu, en allt var mjög rólegt, en ráðherrabílarnir urðu að leggja í túristarútubílastæði.
Í hádeginu var allt fólkið farið, en 2 mættir með skilti sem sögðu: "Nuke Iraq" - "Bomb Saddam" þar voru þeir einir í nokkurn tíma en síðan nokkru seinna bættust við 10 manns að mótmæla Kárahnjúkavirkjun og mátti greina eitthvað um "nauðgun" á einu skiltinu, einn löggubíll var þá á svæðinu. Mér finnst alltaf jafn spaugilegt að sjá svona mótmæli - um leið og ég dáist að fólki sem hefur svona sterkar skoðanir á hlutunum og nennir að mótmæla, svoldið krúttlegt svona.
Voru þessir tveir þarna fulltrúar hins þögla meirihluta? Ég horfði á ávarp Bandaríkjaforseta í beinni útsendingu í nótt. Vissulega var þar einbeittur leiðtogi sem birtist (en ég á vanalega mjög erfitt með að taka hann alvarlega), en mikið þykir mér þetta erfiður biti að kyngja. Það að USA gat ekki kippt Saddam úr valdastóli í fyrri stríðsrekstri gegn Írak, þegar þeir höfðu bakland Vesturlanda, plús það hversu viðkvæmin er gífurleg ennþá í USA og hefndarþorstinn hlýtur enn að svíða, gerir mig svakalega hrædda um að þetta sé ekki nógu yfirveguð ákvörðun, bæði þá að fara ekki með blessun Sameinuðu þjóðanna og hvernig einhliða er krafist afsagnar þjóðarleiðtoga af bandalagi USA, GB og Spánar. Það vefst ekki fyrir mér að heimurinn með engan Saddam er betri en heimur með Saddam. Þess vegna er ég ekki á móti þessum aðgerðum. Hins vegar er þetta hættulegt fordæmi, hvert verður viðmiðið næst? Nóg er svosem af einræðisherrum eftir í heiminum, lýðræði hefur sumstaðar aldrei komist á. Ef lýðræðislega kjörnir fulltrúar stórvelda innan Sameinuðu þjóðanna ofbjóða USA í dag, hvaða lýðræði er nógu hátt skrifað? Gleymum ekki að sitjandi forseti USA náði ekki einu sinni kjöri skv. hinni einföldu formúlu að meirihluti ráði kjöri.
Eftir 36 klukkustundir munum við að öllum líkindum fá stríðsyfirlýsingu í beinni frá Hvíta húsinu, úr þessu vona ég að það verði ekkert paufast við þetta og öllum mætti beitt, því dragist þessi aðgerð á langinn, tvístigi Bandaríkjamenn á einhverjum tímapunkti eftir að stríð hefst - erum við að tala um upphaf III. heimsstyrjaldarinnar. Sé það rétt að tilbúið sé blueprint að stjórnskipulagi að Saddam fráförnum í Írak, þá gæti þetta kannski gengið. Það er samt einhver skítalykt af þessu öllu saman. Ég er ekki sátt við þetta ástand.
Useless information Það var friðarvaka eða eitthvað þannig á Lækjartorgi á sunnudaginn, og í gær var allt Lækjartorg í kertavaxi, hvítum og rauðum vaxslummum.
Bíllinn minn er aðeins ekinn 8.800 km á ári.
Það var pissulykt af ungum útlenskum túristalegum náunga í 10-11 áðan.
Hubba Bubba með appelsínubragði er ekki jafnvont og ég hélt.
Í dag á söngkennarinn minn að snúa aftur til vinnu, svo ég get loksins gefið henni OshKosh flippdótið frá USA.
Eftir 10 daga á ég 15 ára fermingarafmæli. Verst að ég er fyrir löngu búin að tapa trúnni. Réttast hefði verið að maður missti fermingargræjurnar við það.
Geislaspilarinn í þeim er orðinn frekar pirrandi reyndar , hann gúdderar stundum ekki að maður vilji skoppa á milli laga, fer bara í verkfall og þykist ekki einu sinni vera með disk upp í sér, að öðru leyti fínar Kenwood græjur.
Heimsfrægir tónlistarmenn sem ég hef séð live á sviði: Skunk Anansie, Björk, Sigur Rós, Fatboy Slim, Blackalicious, Emilíana Torrini. Celebrity spotting: einu sinni sat ég inni á sama veitingastað og Boy George. Gaman að því.
Í gær sá ég róna tromma á fullu með höndunum á deilibox frá rafveitunni, í svaka fílíng. Fyrir helgi voru rónar að slást fyrir utan pósthúsið. Þeir eru margir sveigirnir sem maður tekur hérna stundum niðrí bæ.