[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
Í gær komst ég í massastuð að æfa mig fyrir tónheyrnarprófið um kl. 23:00. Ég var að á fullu til ca hálf-eitt, en þá endaði ég með að horfa á Golden Globe verðlaunaafhendinguna með öðru auganu, og gera taktæfingar og síðan lestraræfingar í auglýsingahléum og þegar leiðinlegt fólk var á sviðinu. Röddin alveg búin, enda ég búin að vera lasin undanfarið. Mér gekk ömurlega með 25% æfinganna, svo ég á ekki von á að mér gangi vel - í það minnsta ef þessar erfiðustu koma á prófinu er ég feckt! En ég í það minnsta náði að fara yfir allt efnið sem er til prófs og æfa mig nokkrum sinnum á hverri æfingu, vonandi hjálpar það eitthvað.... en ég held samt að ég sé ekki í góðum málum.
Eitt sem böggar mig í umræðunni, það er þetta með að Árni Johnsen reynir að bera fyrir sig afleiðingar glæpa sinna við kröfu um mildun fangelsisdóms. Ég er yfir mig hneyksluð að honum detti í hug annað en að fjárdráttur, þjófnaður, lygar og yfirhylming á öllu saman, hafi veruleg áhrif á atvinnumöguleika og stöðu hans í virðingarstiga þjóðarinnar sem hann stal frá. Það að hann fái ekki vinnu, að fjölmiðlar hafi fjallað mikið um mál hans, að hann hafi mætt andúð í þjóðfélaginu, er bara nákvæmlega það sem hann kallaði yfir sig með háttalagi sínu. Fangelsisvist og sektir eru viðurlög sem ríkið hefur tök á að beita, það er hinsvegar ekki nema rökrétt að gersamlegt brot á trúnaði í einni af æðstu stöðum sem mönnum gefst, hafi alvarlega eftirmála. Ég myndi ekki ráða mann með þessa sögu í neins konar ábyrgðarstarf. Það að hann virkilega hafi ákveðið að fara þessa leið segir mér enn og aftur að hann meðtekur ekki alvarleika brota sinna og sýnir þessheldur enga iðrun. Vissulega á greyið erfitt að vera lasinn, ég skal alveg vorkenna honum að hafa ekki fulla heilsu, en það er hinsvegar ekkert sem á að koma til mildunar dóms að mínu mati. Mér finnst 1,5 árs óskilorðsbundinn dómur í það allra allra minnsta, ég vona að Hæstiréttur taki ekki mark á þessari hringlógík lögmanns Árna. Árni hefði haft það gott ef hann hefði ekki lagst svona lágt að stela frá okkur, þá hefði fólk látið hann í friði og hann hefði getað haldið áfram að vera smákóngur Eyjamanna, hann hefði getað lifað ljúfu lífi á nefndarlaununum fyrir fundina sem var ekki einu sinni mætt á og allir (hóst!) viljað fá hann í vinnu til sín. Ég trúi ekki öðru en Hæstiréttur setji nú upp rétta tímalínu... það er EKKI fullnægjandi refsing að hann hafi verið fjölmiðlamatur og að reiðir kjósendur hafi gert símaat í honum, hann stal fyrst - svo átti hann bágt. Þjóðfélag sem segir "æj æj" og kyssir á bágtið sem glæpamenn kalla yfir sjálfa sig yrði skammlíft.
:: geimVEIRA:: kl. 13:17:: [+] ::
...