[::..Allur réttur áskilinn, öll opinber birting og/eða eftirritun í opinberum
fréttamiðlum, þ.m.t. prent-, vef-, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, er óheimil án skriflegs
samþykkis höfundar...::]
Ég á ekki orð yfir þessu Línu Nets dæmi. Já, búum til svona fyrirtæki og mokum í það pening. Leyfum því að skekkja ennfrekar samkeppnisstöðu á fjarskiptamarkaði, þannig að litlu fyrirburafyrirtækin þurfi að vera í hitakassa þar til þau drepast, því það er of erfið fæðing að berjast við ríkisrekið bákn annars vegar og fjarskiptafélag á sveitarfélagsspena Orkuveitunnar, síðan skulum við stofna dótturfélög og stjúpfélög og skella á spenann og leyfa þeim að leika sér í sandkassa áhættufjárfestinga, þar til þau garga ATT BÚ! Þá skulum við yppa öxlum, því það á alltaf einhver óskilgreind stærð þessa peninga, fara síðan og ná í hjólbörurnar, því nú er það eina sem dugar, að ná í stærri skóflur því eina leiðin upp úr holunni sem þessir snillingar hafa komið sér í, er að moka peningum í botninn á pyttnum, svo allir geti klifrað upp úr holunni.
Núna á ég, Reykvíkingurinn, 1700milljóna ljósleiðarakerfi, sem hefur aldrei boðist mér til afnota. Hefur aldrei skilað mér hagnaði. Var lagt svo að segja ofan í og við hliðina á öðrum ljósleiðara, sem virkaði alveg jafnvel, og aðgangur hefði fengist að fyrir lægri útgjöld en þetta. Ljósleiðarakerfi sem Alfreð Þorsteinsson segir öll stóru fyrirtækin versla við, Flugleiðir, spítalarnir, skólarnir... Var það mitt hlutverk sem Reykvíkings að skapa FLUGLEIÐUM hf. einhvern sérsamning um ljósleiðarakerfi með niðurgreiðslum úr fyrirtækjum í eigu minnar borgar? Hvernig má það vera að öll þessi góða samkeppni hefur aldrei nýst okkur sem búum í borginni?
Já kaupum hlut í fyrirtæki, leyfum því að klúðra sínum málum, reddum fyrirtækinu síðan með því að kaupa þær fjárfestingar sem við höfum þegar lagt fé í, og reynum að breiða yfir það með því að segja að það sé svo mikilvægt að við borgarbúar eigum svona ljósleiðara. Við í borginni áttum þegar ljósleiðara, Alfreð Þorsteinsson! Hann áttum við sem skattgreiðendur því Landssíminn var búinn að leggja ljósleiðara.
Mér ofbýður þessi tvíverknaður á gífurlega dýrri fjárfestingu, mér ofbýður að mér sé gert að trúa því að þetta sé í mína þágu. Ef borgin vildi eignast ljósleiðara, hvers vegna gerði hún ekki kauptilboð í þann sem þegar var í jörðinni. Ljósleiðara sem meira að segja var farið að leggja að heimahúsum allt þar til Landssíminn ákvað að stoppa alla þróunarvinnu þar til kæmi í ljós hvernig sala Landssímans færi í gegn.
Hvernig hefði nú verið að taka einn hundraðasta af þessum 2,3 milljörðum sem Lína.Net hf. hefur fengið að drekka af spenum borgarinnar og lækka útgjöld heimilanna?
Þegar Alfreð var spurður að því í Kastljósinu í kvöld, hvort ekki hefði mátt lækka raforkugjöld til Reykvíkinga, leyfði hann sér að segja eitthvað á þá leið að þá myndum við sóa rafmagninu.
Ég tek öllum ummælum Alfreðs Þorsteinssonar um SÓUN mjög mjög mjög óstinnt upp. Mér er treyst til að greiða hér skatta og sinna mínum skyldum, þá skal mér einnig treyst til þess að ráðstafa þeirri vöru sem ég kaupi að vild. Bara fyrir þig, Alfreð, ætla ég ekki að slökkva á ljósunum í stofunni hjá mér í nótt, hafa kveikt á tölvunni, þurrka eitt handklæði í einu í þurrkaranum og veistu hvers vegna? Af því að ég má það, get það og vil það, og það sem meira er ég borga fyrir það! Hey, nei annars, þá ferðu bara og eyðir þeim peningum í vitleysu. Nei annars, ég kveiki bara á kertum.
:: geimVEIRA:: kl. 00:11:: [+] ::
...